ÍBV sigraði Fjölni örugglega - myndir

06.02.2018
 ÍBV og Fjölnir áttust við í Olís-deild karla í kvöld í leik sem hafði verið frestað í tvígang. Það var viðbúið að Fjölnismenn myndu ekki vera líklegir til árangurs í leiknum þar sem liðið er á botni deildarinnar með einungis einn sigurleik en Eyjamenn aftur á móti í bullandi toppbaráttu.    Framan af var jafnræði með liðunum en í stöðunni 9:8 hrundi leikur gestanna og ÍBV skoraði næstu sjö mörk og breyttu stöðunni í 16:8. Eftir það voru gestirnir aldrei líklegir til að ógna sterku liði ÍBV sem fór að lokum með níu marka sigur af hólmi, lokastaða 31:22.   Theodór Sigurbjörnsson var markahæstur í liði ÍBV með sjö mörk, á eftir honum kom Sigurbergur Sveinsson með sex. Aron Rafn Eðvarðsson var með átta skot varin í markinu og Stephen Nielsen sjö.   Eftir 16 umferðir er ÍBV í öðru sæti Olís-deildarinnar með 26 stig, tveimur stigum á eftir FH.   -myndir