Eyjamenn fara með sjö marka forystu til Ísrael - myndir

10.02.2018
 ÍBV vann góðan sjö marka sigur á ísraelska liðinu Ramhat Hashron í fyrri viðureign liðanna í 16 liða úrslitum Áskorendakeppni Evrópu, lokastaða 32:25.  Jafnræði var með liðunum framan af en gestirnir urðu fyrir blóðtöku strax á 13. mínútu leiksins þegar leikmaður þeirra uppskar rautt spjald fyrir lemja Agnar Smára Jónsson í andlitið þegar hann var í þann mund að láta vaða á markið. Út fyrri hálfleikinn skiptust liðin á að leiða en það voru Eyjamenn sem höfðu eins marks forystu þegar flautan gall eftir 30 mínútna leik, staðan 15:14.  Hægt og bítandi jókst munurinn á liðunum og var hann lengi vel fjögur mörk. Náðu gestirnir frá Ísrael að minnka muninn í tvo mörk þegar um korter lifði leiks en í stað þess að fylgja því eftir settu liðsmenn ÍBV í næsta gír og juku forskot sitt á nýjan leik og gott betur en það. Sjö marka sigur niðurstaðan og útlitið nokkuð gott fyrir Eyjamenn í viðureigninni. Seinni leikurinn mun fara fram næstu helgi en þá verður spilað í Ísrael.  Sigurbergur Sveinsson og Agnar Smári Jónsson voru markahæstir í liði ÍBV með sjö mörk en á eftir þeim kom Theodór með sex. Aron Rafn Eðvarðsson átti stórleik í marki ÍBV með 19 skot varin.     - myndir