Selfoss kærir framkvæmd leiks Fram og ÍBV

23.03.2018
Handknattleiksdeild Selfoss hefur kært framkvæmd leiks Fram og ÍBV í Olísdeild karla sem fram fór síðastliðinn miðvikudag. ÍBV sigraði með einu marki og tryggði sér þar með deildarmeistaratitilinn. Af upptökum sem birst hafa af leiknum kemur í ljós að ÍBV var með of marga leikmenn inni á vellinum á síðustu sekúndum leiksins. www.sunnlenska.is greindi frá.   Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, staðfesti í samtali við sunnlenska.is að stjórn deildarinnar hafi ákveðið á fundi sínum í gærkvöldi að senda inn kæru.   „Samkvæmt leikreglum HSÍ er ljóst að refsing við broti sem þessu er brottvísun leikmanns og vítakast til handa mótherja. Úrslit leiksins ráða því hvort ÍBV eða Umf. Selfoss séu deildarmeistarar og varðar því rétt framkvæmd leiksins miklu fyrir bæði félögin,“ sagði Þórir í samtali við sunnlenska.is.   Selfyssingar gera kröfu um að sá leiktími sem eftir var af leik Fram og ÍBV þegar atvikið kom upp verði endurtekinn, en til vara að leikurinn verði spilaður aftur í heild sinni.