Sandra Erlingsdóttir og félagar í U-20 tryggðu sér sæti á HM

30.03.2018
 Kvennalandslið Íslands skipað leikmönnum 20 ára og yngri tryggði sér sæti á HM í handknatt-leik þegar liðið sigraði Litháen, 32:18 sl. sunnudag í undankeppnin sem leikin var í Vestmannaeyjum yfir helgina.    Ísland tapaði með einu marki, 24:25, fyrir Þjóðverjum á laugardeginum en vann fimmtán marka sigur á Makedóníu, 35:20, á föstudeginum. Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari kvennaliðs ÍBV, og Stefán Arnarson, þjálfari kvennaliðs Fram, eru þjálfarar U-20 liðsins en Fram og ÍBV mætast einmitt í úrslitakeppni Olís-deildarinnar og fer fyrsta viðureignin fram þriðjudaginn 3. apríl nk. á heimavelli Fram.   Sandra Erlingsdóttir, leikstjórn-andi ÍBV, er lykilmaður í U-20 liðinu og lét mikið til sín taka í leikjum helgarinnar. Var hún t.a.m. markahæst í leiknum gegn Makedóníu með átta mörk og næst markahæst gegn Þýskalandi með fimm mörk.    Er ekki óhætt að segja að þið séuð ánægðar með úrslit helgarinnar, þrátt fyrir naumt tap gegn Þjóðverjum? „Jú við erum ótrúlega ánægðar með þessa helgi, við vorum einu marki frá því að koma okkur inná EM í fyrra þar sem við gerðum jafntefli við Rúmeníu sem er eitt af bestu liðum heims í okkar aldursflokki. Það gaf okkur enn þá meiri orku í að klára þessa leiki. Við spiluðum virkilega góða vörn á móti Litháen og Makedóníu og kom það okkur smá á óvart hversu stórt við unnum þá leiki. Tapið á móti Þýskalandi var svekkjandi en við spiluðum einnig frábærlega í þeim leik. Þýska liðið lenti í fimmta sæti á EM í fyrra sem sýnir að við erum virkilega efnilegt lið sem getur náð langt í sumar ef við höldum þessum stíganda áfram.“   Lagðist það vel í íslenska liðið að spila undankeppnina í Eyjum og voru þið ánægðar með stuðninginn í stúkunni? „Já, þeim fannst rosalega gaman að vera loksins á heimavelli í Vestmannaeyjum með æðislega Eyjafólkið með sér í liði. Það var ótrúlega gaman að sjá hversu margir komu á leikina það er svo ótrúlegt hvað það gefur manni mikla auka orku að hafa góðan stuðning í svona leikjum og vil ég þakka öllum þeim sem komu og studdu okkur.“   Í næstu viku hefst úrslitakeppnin þar sem þið mætið Fram. Liðin hafa mæst fjórum sinnum á leiktíðinni og Fram haft betur í öll skiptin. Hvernig leggst þetta einvígi í ykkur og hvað þurfið þið að gera til að knýja fram hagstæð úrslit? „Þetta leggst bara vel í okkur. Miðað við úrslitin í vetur þá erum við litla liðið í þessu einvígi sem þýðir að pressan er öll á þeim. Við þurfum fyrst og fremst að hafa trú á okkur í þessu einvígi og koma inn í þessa leiki fullar sjálfstrausts og þá getur allt gerst,“ segir Sandra að lokum.