Frábær viðsnúningur Eyjamanna - 2:0 yfir í einvíginu

03.05.2018
 ÍBV mætti Haukum á Ásvöllum í kvöld í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins. Eyjamenn fóru með þriggja marka sigur af hólmi, lokastaða 22:25.   Jafnræði var með liðunum framan af en þegar 15 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik voru Eyjamenn tveimur mörkum yfir, staðan 6:8. Tók þá við skelfilegur kafli hjá Eyjamönnum sem skoruðu einungis eitt mark fram að hálfleik á móti níu mörkum frá Haukum.    Um miðbik síðari hálfleiks tók við góður kafli hjá Eyjamönnum en þegar átta mínútur lifðu leiks var Sigurbergur Sveinsson búinn að jafna metin fyrir ÍBV. Næstu þrjú mörk voru sömuleiðis ÍBV og leikurinn svo gott sem búinn. Ótrúlegur viðsnúningur.   Sigurbergur Sveinsson, Theodór Sigurbjörnsson og Kári Kristján Kristjánsson voru markahæstir í liði ÍBV með fimm mörk hver. Aron Rafn Eðvarðsson varði 11 skot í markinu.