Verður að öllum líkindum áfram í ÍBV á næsta tímabili

25.06.2018
Theodór Sigurbjörnsson, hornamaður ÍBV og íslenska landsliðsins í handbolta, var kallaður inn í landsliðshópinn fyrir leikinn gegn Litháum. Leikurinn sem um ræðir var síðari viðureign liðanna um laust sæti á HM sem fram fer í Þýskalandi og Danmörku í janúar. Íslenska liðið hafði betur 34: 31 og tryggði sér þar með farseðilinn á HM og er óhætt að segja að Teddi hafi átt sinn hlut í sigrinum.   Teddi var að vonum sáttur með leikinn þegar Eyjafréttir náðu tali af honum í gær. Stefnir hann að því að festa sig í sessi í landsliðinu, komast á HM og í framtíðinni gera hægra hornastöðuna að sinni. Hvað fór í gegnum hugann á þér þegar þú varst kallaður í hóp? „Bara virkilega sáttur, ég bjóst alveg við þessu og var undir þetta búinn.“ Þú komst inn í hægra hornið eftir að Arnór Þór var rekinn af velli og skoraðir fimm mörk og skilaðir heilt yfir góðri frammistöðu. Hvernig er þetta frábrugðið því að spila fyrir ÍBV? „Þetta er aðeins stærra svið og maður er að koma inn í gríðarlega mikilvægan leik. Það var líka mikilvægt fyrir mig að fara beint í djúpu laugina en ekki að koma inn í þrjár fjórar mínútur svo Addi gæti hvílt sig.“ Er markmiðið að brjótast inn í byrjunarliðið fyrir HM í janúar og gera þessu stöðu að þinni í landsliðinu? „Já, engin spurning, það er planið að komast á mitt fyrsta stórmót og vonandi í framtíðinni að gera þetta að minni stöðu. En Addi er frábær og það verður erfitt að ýta honum út en Gummi veit af mér og ég er alltaf klár.“ Eftir leik var mikið rætt um framtíð þína og vildu menn meina að þú ættir jafnvel heima í þýsku deildinni. Hverjar eru líkurnar á því að þú spilir erlendis á næsta tímabili? „Þær eru ekki miklar, ég hugsa ég spili hérna næsta vetur en maður skoðar að sjálfsögðu allt og ég er opinn fyrir öllu. En það eru meiri líkur en minni að ég verði í ÍBV á næsta tímabili.“