30 ár liðin frá fyrsta Íslandsmeistaratitli ÍBV
Áttu ekki að geta neitt
Forráðamaðurinn, fyrirliðinn, þjálfarinn og leikmaðurinn fara yfir tímabilið 1979
 
16. september  2009 voru nákvæm­lega 30 ár liðin frá því að knatt­spyrnu­lið ÍBV fagnaði fyrsta Íslandsmeistara­titlinum. Liðið hafði spilað síðasta leik sinn daginn áður en í þá daga fóru síðustu leikirnir ekki endilega fram samdægurs. Árið 1979 var ÍBV í toppbaráttu allt sumarið en mótið þótti óvenju jafnt. Fyrir síðustu umferðina var málum þó þannig    háttað að ÍBV og Valur voru jöfn að stigum. ÍBV lék gegn Víkingi á úti­velli laugardaginn 15. september og vann 0:1. Valsmenn fóru daginn eftir norður til Akureyrar til að spila gegn KA sem var þegar fallið í 2. deild og áttu fæstir von á að hið ógnarsterka lið Valsmanna myndi misstíga sig. En annað kom á daginn, leiknum lykt­aði með 1:1 jafntefli og því fögnuðu Eyjamenn sigri, spariklæddir í Lee Cooper jakkafötum sem Steini og Stjáni útveguðu liðinu fyrir sumarið. Þannig tóku Eyjamenn við titlinum á Laugardalsvelli og sigldu síðan með hann heim með Herjólfi.
             Júlíus G. Ingason settist niður með þeim Viktori Helgasyni, þjálfara liðsins, Jóhanni Ólafssyni, sem var í knatt­spyrnu­ráði, Þórði Hallgríms­syni, fyrirliða og Viðar Elíassyni, leikmanni liðsins og rifjaði upp þetta eftirminni­lega sumar.
Eyjamenn, sem tóku þátt í fyrsta Íslandsmótinu 1912 undir nafninu KV höfðu aldrei áður fagnað sigri í mótinu, þótt stundum hafi ekki munað miklu. Til dæmis urðu ÍBV og Keflavík jöfn að stigum 1971 en ÍBV var með betra markahlutfall og samkvæmt reglum nútímans hefðu Eyjamenn fengið titilinn. En í þá daga var ákveðið að fram færi hreinn úrslitaleikur milli liðanna tveggja á Laugardalsvelli. Kefl­víkingar höfðu betur gegn ungu liði ÍBV og unnu 4:0. 11 þúsund manns voru á vellinum og hefur ekki verið jafn mikill fjöldi á einum knattspyrnu­leik milli tveggja íslenskra liða,   hvorki fyrr né síðar. 
            Reyndar munaði ekki miklu að ÍBV þyrfti aftur að leika aukaleik 1979 því Valsmenn skoruðu mark í uppbótartíma gegn KA sem var dæmt af og voru Valsmenn allt annað en sáttir við dóminn enda kostaði hann liðið möguleika á titlinum.
Stuttur aðdragandi
Aðdragandi tímabilsins 1979 var ekki langur en þjálfarinn var ráðinn um tveimur mánuðum áður en tímabilið hófst. Englendingurinn Skinner hafði stýrt liðinu tímabilið áður. „Ég hafði verið með liðið þrjú tímabil fyrir gos og hafði reyndar lofað því að vera með liðið þegar fór að gjósa. En þarna fyrir tímabilið 1979 voru algjör vandræði því það fékkst enginn til að vera með liðið. Enda voru þetta svoddan gaurar að það fékkst enginn til að taka þetta,“ sagði Viktor og leit hýru auga til þeirra Viðars og Þórðar.   „Auk þess ætlaði stór hluti leikmannanna að hætta þannig að ástandið var ekki gott.“
            „Maður átti nú marga fundi hérna hinu megin við götuna, í Hvíta húsinu með Haraldi Gíslasyni til að reyna fá Viktor lausan úr Gúanóinu svo hann gæti þjálfað liðið,“ sagði Jóhann. „Viktor vildi vera með svo lengi sem hann fengi sig lausan úr vinnunni og ég var í þeirri aðstöðu að labba stundum þarna inn í Hvíta húsið. En þetta gekk að lokum og Viktor vildi vera með í ráðum hverjir yrðu í knattspyrnuráðinu. Þegar búið var að skipa það var komið að því að ganga á leikmennina.“
            „Við hjóluðum í strákana og á endanum náðum við að hóa saman í góðan leikmannahóp. Þarna var ég búinn að skrá mig í ferð með Kiwanis til Bandaríkjanna og það varð að samkomulagi að ég myndi ekki vera með liðið síðustu vikuna í Íslandsmótinu því þá ætlaði ég að vera í Bandaríkjunum. En svo þegar leið á mótið þá sá maður auðvitað að það var ekki hægt að fara, svo ég frestaði ferðinni út um eina viku.“
            ÍBV liðinu hafði gengið vel árin áður, höfðu fagnað bikarmeistaratitli 1968 og aftur 1972 eða sama ár og liðið spilaði hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. „Það var besta ár ÍBV frá upphafi. Þótt við hefðum unnið titilinn 1979 þá finnst mér að ’72 hafi verið besta árið,“ skýtur Jóhann inn í.
Frábær mórall
Þeir félagar segja allir að andinn í hópnum hafi verið einstaklega góður þetta árið. „Á þessum tíma var bara gaman í fótboltanum og menn gerðu þetta ánægjunnar vegna. Strákarnir í liðinu og þeir sem stóðu að því voru bara eins og fjölskylda manns en mórallinn var sérstaklega góður þetta árið man ég. Oft eru þrjár til fjórar klíkur í svona leikmannahópi en ’79 var bara ein klíka hjá ÍBV,“ sagði Þórður.
            Og það var margt sem lagðist á eitt fyrir ÍBV þetta sumarið, margir lögðu hönd á plóg þannig að umgjörðin um liðið varð sem best og flottust auðvitað. „Steini og Stjáni voru með samnefnda verslun við Skólaveginn og þeir sömdu við Lee Cooper um að klæða liðið upp í jakkaföt merktum félaginu og Lee Cooper. Þetta þótti ákaflega glæsilegt og gaman fyrir hópinn að vera í eins fötum,“ sagði Jóhann.
            „Ég veit um einn í hópnum sem á fötin enn,“ skýtur Viðar inn í.
Og hver er það?
Viðar segir ekkert en lítur hýru auga á fyrrum félaga sinn í ÍBV liðinu Þórð Hallgrímsson. „Mér skilst meira að segja að manneskja hafi verið í jakkafötunum á Þjóðhátíð fyrir nokkrum árum,“ bætir Viðar við og þeir félagar skella upp úr.
            „Jú ég viðurkenni það að ég á jakkafötin ennþá og líklega sá eini úr liðinu sem á þau enn,“ viðurkenndi Þórður hlæjandi.
Aðrir tóku þetta alvarlega
„Þetta var einn hluti af því að skapa góðan móral í hópnum. Annar hluti var að Pálmi Lórens bauð liðinu alltaf í te og rist fyrir leiki og það þjappaði mönnum saman. Allt þetta skapaði góða umgjörð þannig að leikmönnum leið vel að spila fyrir ÍBV,“ bætir Jóhann við.
            „Ég man líka eitt sinn þegar ég sat í húsi einu í Kópavogi,“ sagði Viktor. „Þangað kom Sigurður Grétarsson, sem þá lék með Breiðabliki og hann fór að segja hversu alvarlega þeir tóku þetta. Þar var algjört vínbann tveimur vikum fyrir mót og þangað til Íslandsmótinu lauk. Ég hálf skammaðist mín að segja frá því hvernig þetta var hjá okkur. Hjá ÍBV fögnuðu menn sigrunum og ef við töpuðum, þá þurfti að ná mönnum upp. Við lyftum okkur því upp reglulega en seinna áttaði ég mig á því að þetta var hluti af því að skapa góðan móral í hópnum.“
            „Svo var nú Gvendur ÞB duglegur með Abba plöturnar sínar,“ bætti Jóhann við og þeir félagar skelltu upp úr.
Þekkti liðið vel
Viktor þekkti vel til liðsins þegar hann tók við því en hann hafði þjálf­að ÍBV liðið. „Ég tók við 1970 sem þjálfari og hafði auðvitað spilað með liðinu árin áður. Ég þjálfaði ÍBV í þrjú ár eða fram að gosi en hópurinn hafði breyst ótrúlega lítið þegar ég kom aftur að þjálfun 1979. Þarna var enn sami kjarni leikmanna en auðvitað höfðu ungir leikmenn bæst við eins og Viðar og fleiri. En ég þekkti þá svo sem ágætlega líka því ég hafði þjálfað 2. flokk sem náði góðum árangri á sínum tíma.“
Þannig að ÍBV liðið var þrátt fyrir allt reynslumikið?
„Já, leikmenn höfðu talsverða reynslu. Meistaraflokkur var í raun og veru bara 2. flokkur 1970 þegar ég var fyrst með liðið með nokkrum undantekningum þannig að níu árum seinna voru þessir leikmenn enn í meistaraflokki. En þrátt fyrir þetta hafði liðið farið niður í 2. deild í millitíðinni.“
Mættum bara, æfðum og spiluðum
En hvernig leist þér á tímabilið Þórður? Varst þú kannski einn þeirra sem ætlaði að hætta?
„Nei, nei. Ég man að minnsta kosti ekki eftir því. En mér leist bara ágætlega á þetta. Maður var svo sem ekkert að spá í hvernig liðið væri og hvort við ættum möguleika. Við mættum bara á fótboltavöllinn, æfðum og spiluðum svo leikina.“
            „Ég man að ég byrjaði 1973 og það var í raun ótrúlegt að það hafi tekist að halda liðinu saman í gosinu,“ sagði Viðar. „Við æfðum og spiluðum í Njarðvík og menn lögðu mikið á sig við að mæta á æfingar, keyrðu jafnvel alla leið frá Þorlákshöfn.  Varst þú ekki einn þeirra sem komu þaðan Þórður?“
„Jú, jú,“ svaraði Þórður og glotti.
Stutt undirbúningstímabil
En hvernig gekk svo undirbúningstímabilið?
„Það var nú í styttra lagi og við gerðum ekki mikið meira en að æfa. Við spiluðum ekki marga æfinga­leiki, ef við spiluðum þá einhverja?“ sagði Viktor og leit spyrjandi á fél­aga sína.
            „Jú við höfum nú örugglega spilað einhverja leiki. Það var t.d. þessi bæjarkeppni gegn Breiðabliki en æfingaleikirnir voru reyndar ekki mjög margir,“ sagði Þórður.
            „Ég man það vel að ég var í talsverðan tíma að læra inn á leikmennina í liðinu, þó svo að ég   þekkti marga þeirra vel. Ég skipti stundum bara í tvö lið og svo var ­spilað. Þá fór ég bara upp í brekku til að fylgjast með leikmönnum og sjá hvaða eiginleika þeir höfðu. Það tók svolítinn tíma að púsla þessu saman og það voru ekki allir sáttir við það púsluspil,“ sagði Viktor og klappaði á öxlin á Viðari. „Hvers á ég að gjalda? Spurði Viðar mig eitt sinn en hann hafði komið frá Víkingi sem sóknarmaður en var færður í bakvörðinn hjá ÍBV,“ bætti Viktor við og þeir félagar hlógu að endurminningunum.
Vorum bara ruddar og áttum ekki að geta neitt
Byrjunin á Íslandsmótinu lofaði ekkert sérstaklega góðu en ÍBV vann tvo leiki, gerði eitt jafntefli en tapaði tveimur leikjum í upphafi leiktíðar. Þeir félagar voru sammála um að ÍBV hefði verið lengi í gang.                     „Líklega var það þetta stutta undirbúningstímabil og fáir æfingaleikir sem gerðu það að verkum að við vorum lengi í gang. En eftir að við komumst í gang, þá vorum við ansi góðir,“ sagði Þórður.
Hverjar voru væntingarnar til ÍBV liðsins fyrir þetta tímabil?
„Þær voru engar. Við áttum ekki að geta neitt og við vorum bara að þvælast fyrir stóru félögunum,“ sagði Viktor. „Jafnvel þótt við værum að vinna leiki þá voru blöðin hundleiðinleg við okkur. Við vorum bara ruddar og áttum ekkert að geta neitt. En við notuðum þetta, sýndum okkar leikmönnum hvernig aðrir hugsuðu um ÍBV og þetta hleypti illu blóði í menn. Það gaf þeim aukakraft og fljótlega fóru að renna á menn tvær grímur þegar við héldum áfram að vinna leiki. Á endanum stóðum við uppi sem sigurvegarar. Ég man að blaðamaður Vísis ætlaði að taka við mig viðtal eftir að við tókum við Íslandsmeistarabikarnum. Sá hafði haft horn í síðu ÍBV allt sumarið en ég sagðist ekki vilja tala við þann ágæta mann,“ sagði Viktor.
Óvenju jafnt Íslandsmót
„Annars var mótið afskaplega jafnt þetta sumarið. ÍA, Valur og Keflavík voru með geysilega sterk lið á þessum tíma. Við fórum með baráttuna að vopni, vorum auðvitað að spila vel en vorum ekki endilega með jafn góða fótboltamenn og önnur lið. En við börðumst í öllum leikjunum og uppskárum eftir því,“ bætti Viðar við.
Kom það ykkur kannski til góða að enginn átti von á að ÍBV myndi ná árangri þetta sumar?
„Nei, við vorum bara að spila nógu vel til að vinna þessi lið,“ svaraði fyrirliðinn fyrrverandi.
Fögnuðum í stæðunum á Laugardalsvelli
Eins og áður sagði spilaði ÍBV ­­síðasta leik sinn í Íslandsmótinu degi áður en Valur spilaði sinn síðasta leik. Búið var að biðja leikmenn ÍBV að hinkra í höfuðborginni eftir úrslitum úr leik Valsmanna fyrir norðan, svo hægt væri að krýna Eyjamenn Íslandsmeistara ef Valsmönnum skrikaði fótur. „Við fórum á Þrótt-ÍA á Laugardalsvelli og svo var tilkynnt í hátalarakerfi vallarins að KA og Valur hefðu gert jafntefli og við værum orðnir Íslandsmeistarar. Þarna fögnuðum við fyrsta Íslandsmeistaratitli félagsins í stæðunum gegnt stúkunni á Laugardalsvellinum,“ svaraði Viktor.
Var búið að gera einhverjar ráðstafanir ef svo ólíklega vildi til að Valur myndi ekki vinna KA?
„Já KSÍ hafði undirbúið litla hátíð eftir leik Þróttar og ÍA en hún var frekar lítilfjörleg. Þeir létu unga knattspyrnustráka standa heiðurs­vörð og við stilltum okkur svo upp fyrir framan stúkuna. Í minningunni voru ekki margir í stúkunni en Albert Guðmundsson, þáverandi formaður Knattspyrnusambandsins afhenti okkur bikarinn,“ útskýrði Jóhann.
Var ekki gaman að taka á móti fyrsta Íslandsmeistaratitlinum Þórður?
„Jú það var það, mjög eftirminnilegt og gaman að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessu. En það voru hins vegar móttökurnar hérna heima sem voru skemmtilegastar af þessu öllu,“ sagði Þórður.
Móttökurnar hér heima ógleym­an­legar
Eins og við mátti búast braust út mikill fögnuður í Eyjum við tíðindin en ÍBV varð fyrst liða utan Faxaflóasvæðisins til að vinna Íslandsmeistarabikarinn. „Þeir voru nú ekkert mjög sátti við það, forráða­menn stærstu liðanna í Reykjavík en við unnum til þess og létum þá ekki taka af okkur titilinn aftur eins og gert var 1972,“ sagði Viktor, sem einmitt var einnig ­þjálfari þá.
            „Ég man að ég hafði verið í símasambandi við forráðamenn Herjólfs um að fresta brottför skipsins. Í þá daga sigldi Herjólfur bara eina ferð á dag þannig að það var talsvert mál að fresta brottför. En það hafðist að lokum og við gátum siglt heim með bikarinn,“ sagði Jóhann.
            Þeir félagar voru allir sammála um að heimkoman hafi verið ógleymanleg. „Það hafði safnast saman gríðar­legur fjöldi fólks á Herjólfs­bryggjunni og það var mikið fagnað þegar við stilltum okkur upp. Þarna var lúðrasveitin og þarna voru fluttar ræður. Svo var auðvitað fagnað fram eftir kvöldi,“ sagði Þórður.
Toppurinn á ferlinum
Hafði það ekki góð áhrif á knatt­spyrnuna í Eyjum að vinna Íslands­meistaratitilinn?
„Mér fannst það nú á þeim fimm árum sem ég var með liðið, þá var árið eftir Íslandsmeistaratitilinn það erfiðasta af þeim öllum,“ sagði Viktor.
            „Væntingarnar voru auðvitað ­miklar en við enduðum í sjötta sæti. Sem var reyndar ágætis árangur en við áttum erfitt með að sætta okkur við sjötta sætið,“ sagði Viðar.
Var þessi árangur toppurinn á ferl­inum?
„Já ekki spurning,“ svaraði Þórður. „Ég var bæði með þegar við urðum bikarmeistara 1972 og 1981 en Íslandsmeistaratitillinn er alltaf eftirminnilegastur.“
            „Þetta voru langskemmtilegustu árin og markmið allra að verða Íslandsmeistari,“ svaraði Viðar. „Mín kynslóð hafði kynnst því að vinna Íslandsmót í gegnum alla yngri flokkana og við náðum mjög góðum árangri. 4. flokkur, 3. flokkur og 2. flokkur höfðu allir orðið Íslandsmeistarar og á þeim grunni var byggt upp sterkt meistara­flokkslið. Aðrar íþróttir voru líka ekki að trufla svo mikið eins og í dag. Menn voru eitthvað að gutla í handbolta og eitthvað í körfubolta en annað var ekki í boði. Menn lögðu líka mikið á sig til að ná árangri á vellinum, sérstaklega um og eftir gosið. Við börðumst alltaf til síðasta manns og samstaðan í ÍBV var alltaf mikil. Menn voru að berjast fyrir bæjarfélagið en því miður hefur það minnkað hin síðari ár. Menn voru líka taldir dálítið sérstakir sem komu frá Eyjum. Það hefur reyndar ekkert breyst,“ bætti Viðar við glottandi að lokum.
 
Léku gegn hollensku meisturunum á Hásteinsvelli
Sumarið var um margt mjög eftirminnilegt hjá ÍBV því liðið fékk heimsókn frá hollenska meisturunum í Feyenoord og lék gegn liðinu á Hásteinsvelli. Hjá Feyenoord lék ungur íslenskur framherji, Pétur Pétursson en Eyjamenn voru með ás upp í erminni. Ásgeir Sigurvinsson lék með ÍBV en leikurinn þótti afbragðsskemmtun. „Já ég var nú bara búinn að gleyma þessu,“ sagði Viktor.
            „Skagamenn stóðu fyrir komu þeirra hingað til lands og það varð að samkomulagi að þeir kæmu hingað og léku gegn ÍBV. Til að jafna leikinn aðeins fengum við Ásgeir til að spila með okkur og leikurinn fór fram í blíðskaparveðri.“
            „Ásgeir var hérna í fríi og þetta var algjört ævintýri fyrir okkur leikmennina,“ sagði Þórður.
            Í Fréttum er sagt frá leiknum en þar kemur fram að um 1800 manns hafi sótt leikinn í einstöku blíðskaparveðri. „Um gang leiksins er það að segja, að hressilegt spil var í byrjun fyrri hálfleiks og nokkur harka frá beggja hálfu. Fyrsta mark leiksins skoraði Akurnesingurinn Pétur Pétursson, er nokkrar mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik. Stuttu síðar gerðu Hollendingar annað markið. Þriðja markið skoraði svo Pétur úr vítaspyrnu, en í seinni hálfleik skoruðu Hollendingar fjórða markið.
            ÍBV liðið stóð sig með ágætum í þessum leik og markatala hans gaf ekki raunhæfa mynd af leiknum. Eyjamenn fengu mýmörg tækifæri sem ekki nýttust. Ásgeir Sigurvinsson var „dekkaður“ svo af mótherjum, að hann gat ekki um frjálst höfuð strokið allan leikinn. Höfðu kunnugir á orði eftir Ásgeiri, að þessi leikur hefði verið fullt eins erfiður og 1. deildarleikur í Belgíu með Standard.
            Sem sagt, úrslitin 4-0 fyrir Feyenoord. Svo sannarlega óverðskulduð úrslit, en mörkin ráða.
 
(Birt með góðfúslegu leyfi FRÉTTA, en þessi umfjöllun birtist í blaðinu 16. september 2009)