Í baráttu um titla á þrennum vígstöðvum

02.03.2018
 Karla- og kvennalið ÍBV í handboltanum eru í slag um titla á þrennum vígstöðum, í Coca Cola bikarnum, í báðum deildum og karlarnir eru á leið í átta liða úrslit í Áskorandakeppni Evrópu. Það er því í mörg horn að líta hjá Karli Haraldssyni sem fer fyrir handboltanum hjá ÍBV- íþróttafélagi. Í Evrópukeppninni er leikið heima og heiman og reyndi ÍBV að fá báða leikina heim en það gekk ekki.   ÍBV hefur ekki farið stuttu leiðina í Evrópukeppninni, spilaði í Hvíta Rússlandi, Ísrael og núna er það Rússland. „Já, við erum á leið í víking til Rússlands þar sem við mætum Krastnador sem er rétt norður af Svartahafi. Við erum búnir að sjá þá á myndböndum og eigum bullandi séns á að komast áfram. Það er búið að draga í fjögurra liða keppninni þar sem við mætum annað hvort Fyllingen í Noregi eða Turda frá Rúmeníu. Að því gefnu að við komumst áfram,“ sagði Karl. Það er leikið ytra 24. mars og hér heima viku seinna. „Því miður gekk ekki að fá báða leikina hingað heim og það verður bara að takast á við það. Þetta verður gríðarlegt ferðalag, tekur sólarhring hvora leið en þessi ferðalög hafa þétt hópinn sem ætlar sér alla leið.“ Um aðra helgi er fjórðungsúrslita helgin í Coca Cola bikarnum sem fram fer í Laugardalshöllinni þar sem bæði karla- og kvennaliðið ÍBV mæta. „Undanúrslitin eru á fimmtudaginn og föstudaginn og mæta stelpurnar Fram og strákarnir Haukum. Úrslitin eru svo á laugardeginum og okkar möguleikar liggja í að gera Laugardalshöllina að okkar heimavelli. Það verður brjáluð stemning og draumurinn er að koma heim með báða bikarana. Þá verður ÍBV handhafi allra bikara í bikarkeppnum í meistaraflokkum í handbolta og fótbolta karla og kvenna. Árangur sem ekkert félag hefur náð og verðum við með hópferðir á leikina gangi allt að óskum.“ Bæði liðin eiga möguleika á deildinni, konurnar í þriðja sæti og karlarnir í öðru og eiga leik til góða. „Þetta væri ekki hægt nema að hafa öflugt bakland og mæting á leiki hefur verið frábær,“ sagði Karl að endingu.