Stelpurnar úr leik í bikarnum
08.03.2018 Kvennalið ÍBV í handbolta er úr leik í Coca Cola bikarnum eftir þriggja marka tap gegn Fram í kvöld, lokastaða 29:26. Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með en þegar líða tók á hálfleikinn seig Fram liðið hægt og bítandi fram úr Eyjakonum og var munurinn sex mörk þegar gengið var til búningsherbergja, staðan 17:11. Fólst munurinn á liðunum ekki síst í markvörslu Guðrúnar Óskar í marki Fram en hún var með 11 varða bolta í fyrri hálfleiknum. Þrátt fyrir þungan róður framundan lögðu liðsmenn ÍBV ekki árar í bát og voru stelpurnar búnar að minnka muninn í eitt mark þegar um korter lifði leiks. Segja má að Fram liðið hafi aðeins rankað við sér eftir þennan kafla og náði það aftur nokkuð öruggri forystu þrátt fyrir að ná aldrei almennilega að hrista ÍBV af sér. Svo fór að Fram landaði verðskulduðum þriggja marka sigri en Eyjakonur geta gengið stoltar frá borði eftir hetjulega baráttu í síðari hálfleik. Sandra Erlingsdóttir var markahæst í liði ÍBV með átta mörk, þar af sex úr víti. Guðný Jenný Ásmundsdóttir var með sjö skot varin í markinu.