Sigrar í báðum leikjum kvöldsins - myndir

14.03.2018
 Bæði karla- og kvennalið ÍBV í handbolta voru í eldlínunni í Olís-deildunum í kvöld en skemmst er frá því að segja að bæði lið fóru með sigur af hólmi.   Í fyrri leik kvöldsins fóru Eyjakonur afar illa með Stjörnuna en lokatölur voru 37:23. Það var ljóst snemma leiks að Stjarnan yrði ekki mikil fyrirstaða og var staðan í hálfleik 19:11. Liðsmenn ÍBV gáfu ekkert eftir í síðari hálfleik og gjörsamlega rúlluðu yfir slakt lið Stjörnunnar.   Karólína Bæhrenz var markahæst í liði ÍBV með átta mörk. Á eftir henni kom Ester Óskarsdóttir með sjö mörk. Erla Rós Sigmarsdóttir varði tíu skot í markinu.   Í seinni leik kvöldsins mætti karlaliðið ÍR í leiks sem var aðeins meira spennandi. Eyjamenn reyndust þó alltaf líklegri og svo fór að heimamenn sigruðu með fjórum mörkum, lokatölur 30:26.   Þrjá lykilmenn vantaði í lið ÍBV í kvöld en þeir Róbert Aron Hostert og Sigurbergur Sveinsson voru í agabanni á meðan Theodór Sigurbjörnsson er að jafna sig eftir líkamsáras eins og fram hefur komið á vef Eyjafrétta.   Það var allt í járnum í fyrri hálfleik en það var ÍBV sem leiddi með einu marki í hálfleik, staðan 14:13. Í síðari hálfleik fór meira að skilja á milli liðanna og var munurinn mest fimm mörk. Svo fór að leikurinn endaði 30:26 eins og fyrr segir. Eyjamenn geta verið nokkuð sáttir með sína spilamennsku í leiknum, ekki síst í ljósi atburða helgarinnar.   Kári Kristján Kristjánsson og Agnar Smári Jónsson voru markahæstir í liði ÍBV með átta mörk hvor. Aron Rafn Eðvarðsson var með 12 skot varin í markinu.   -myndir