Eyjakonur enda í þriðja sæti eftir enn eitt tapið gegn Fram

17.03.2018
Kvennalið ÍBV í handbolta mætti Fram á útivelli í dag í síðustu umferð Olís-deildar kvenna. Eyjakonur töpuðu leiknum með fimm mörkum og enda því í þriðja sæti Olís-deildarinnar, lokatölur 28:23. Var þetta fjórða viðureign liðanna í vetur en allar hafa þær endað með sigri Fram. Þessi sömu lið mætast síðan í undanúrslitum í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.   Fram var með yfirhöndina allan leikinn og skoruðu t.a.m. sex fyrstu mörk leiksins en staðan í hálfleik var 14:8.   Í síðari hálfleik fór munurinn mest í átta mörk og minnst í fjögur og sigurinn því aldrei í neinni teljandi hættu.   Sandra Erlingsdóttir var atkvæðamest í liði ÍBV í dag með 11 mörk, þar af átta úr víti. Guðný Jenný Ásmundsdóttir varði níu skot í markinu.