Kærunni vísað frá dómi
24.03.2018Eins og greint var frá í gær kærði handknattleiksdeild Selfoss framkvæmd leiks Fram og ÍBV í Olísdeild karla sem fram fór á miðvikudag. Í gær var svo kveðinn upp úrskurður í umræddu kærumáli.
Þar segir að þar sem kærandi í þessu máli hafi ekki verið aðili að umræddum leik verði ekki fallist á að kærandi uppfylli það skilyrði 33. gr. laga HSÍ að misgert hafi verið við hann þótt dómarar hafi látið tiltekið atvik óátalið. Með vísan til þessa er málinu vísað frá dómstólnum þar sem kæranda skortir málskotsheimild skv. ákvæði 33. gr. laganna. Ekki er tekin afstaða í þessum úrskurði til síðara skilyrðis sama ákvæðis, þ.e. hvort kærandi hafi hagsmuni af niðurstöðu málsins. Í úrskurðarorðum dómstóls Handknattleikssambands Íslands segir að kæru handknattleiksdeildar Umf. Selfoss gegn Íþróttabandalagi Vestmannaeyja og handknattleiksdeild Fram dags. 22. mars 2018 sé vísað frá dómi.