Aron Rafn og Theodór drógu sig úr landsliðshópnum
03.04.2018Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, hefur orðið að gera talsverðar breytingar á landsliðshópnum sem hann fer með til Noregs í fyrramálið þar sem íslenska landsliðið tekur þátt í fjögurra liða móti sem hefst á fimmtudaginn. www.mbl.is greindi frá.
Theodór Sigurbjörnsson og Aron Rafn Eðvarðsson, leikmenn ÍBV hafa dregið sig úr hópnum. Ólafur Andrés Guðmundsson, Ólafur Bjarki Ragnarsson, Ólafur Gústafsson, Ýmir Örn Gíslason hafa einnig allir dregið sig út úr hópnum. Flestir vegna meiðsla en einnig af persónulegum ástæðum. Í þeirra stað hefur Guðmundur kallað inn í hópinn Elvar Örn Jónsson og Teit Örn Einarsson, leikmenn Selfoss, Ágúst Birgisson úr FH og Haukamanninn Daníel Þór Ingason. Fjórir leikmenn hafa verið kallaðir inn í B-landsliðið í handknattleik og þar á meðal er Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson.
Upphaflega voru 20 leikmenn í hópnum sem Guðmundur valdi um miðjan síðasta mánuð. Sex þeirra eru hrokknir úr skaftinu. Átján leikmenn fara til Noregs á morgun. Mótið hefst á fimmtudaginn í Sötra Arena í nágrenni Björgvinjar í Noregi. Fyrsti leikur íslenska liðsins verður við norska landsliðið á fimmtudag. Síðan mæta Íslendingar Dönum á laugardag og heimsmeisturum Frakka daginn eftir.