Gríðarlega mikilvægur undirbúningur fyrir sumarið

13.04.2018
 Um páskana lögðu níu peyjar land undir fót og fóru til Spánar í golfæfingaferð með þjálfara sínum Einari Gunnarssyni golfkennara Golfklúbbs Vestmannaeyja. Þeir voru við æfingar í tíu daga við frábærar aðstæður á golfsvæði sem heitir La Sella og er staðsett miðja vegu á milli borganna Alicante og Valencia. Allur aðbúnaður var til fyrirmyndar og nutu peyjarnir sín í botn við æfingar. Aðspurður segir Einar að slík ferð sé gríðarlega mikilvæg í undirbúningi fyrir sumarið en peyjarnir hafa stundað æfingar í allan vetur í inniaðstöðu Golfklúbbs Vestmannaeyja. „Með því að fara í æfingaferð í aðdraganda sumarsins gefst okkur tækifæri að æfa hluti sem erfitt er að æfa yfir vetrartímann á Íslandi auk þess að ferð sem þessi er nýtt vel í að spila golf á grænu grasi sem við höfum ekki séð í marga mánuði heima í Vestmannaeyjum. Svo má ekki gleyma félagslega þættinum en ferðir sem þessar þjappa hópnum vel saman og ég verð nú bara að nefna að þessir peyjar eru algerlega til fyrirmyndar og eru sjálfum sér, golfklúbbnum og Vestmannaeyjum til sóma,“ segir Einar. Framundan er áframhaldandi æfingar og undirbúningur fyrir keppnistímabilið á unglingamótaröðum GSÍ. Peyjarnir munu taka þátt í fimm mótum í sumar og keppa á meðal bestu unglinga landsins á Íslandsbankamótaröðinni. Auk þess taka þeir þátt í Íslandsmóti golfklúbba í unglingaflokki en 18 ára flokkurinn verður einmitt leikinn á Vestmannaeyjavelli um miðjan ágúst og eru Eyjamenn hvattir til að mæta á völlinn og fylgjast með GV peyjunum.