Stuðningsmennirnir skipta öllu máli

20.04.2018
 ÍBV mætir rúmenska liðinu Turda í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu á morgun kl. 15:00 en leikurinn fer fram í Vestmannaeyjum. Forsala miða hófst í Tvistinum í gær og eru allir hvattir til að mæta tímanlega í húsið á morgun til að hvetja strákana. Í samtali við Eyjafréttir sagði Arnar Pétursson, þjálfari Eyjamanna, verkefnið leggjast vel í sig og hvatti jafnframt fólk til að fjölmenna á völlinn.   „Þetta leggst bara vel í mig, þetta er hörku lið. Þetta verður erfitt verkefni og vonandi skemmtilegt líka.“   Hvernig er staðan á þínum mönnum, eru allir heilir? „Aggi er enn þá meiddur eftir að hafa orðið fyrir hnjaski í leiknum gegn ÍR og það verður bara að koma í ljós um helgina hvort hann verður tilbúinn. Aðrir ættu að vera heili,“ segir Arnar.   Hvað veistu um Turda liðið? „Þeir eru búnir að bæta við sig töluvert af leikmönnum frá því þeir spiluðu við Val, t.d. öfluga skyttu frá Frakklandi. Þeir fóru náttúrulega alla leið í úrslit í fyrra og hafa mikla reynslu í evrópukeppni. En vonandi er ekkert sem á eftir að koma okkur mikið á óvart í leiknum,“ segir Arnar og hvetur stuðningsmenn liðsins til að mæta.   „Stuðningsmennirnir skipta öllu máli, þeir hafa verið frábærir í vetur og á ég ekki von á öðru í þessum leik.“