Eyjamenn komnir yfir í einvíginu gegn Haukum

24.04.2018
 ÍBV lagði Hauka að velli í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla sem fram fór í kvöld, lokatölur 24:22.   Það voru heimamenn í ÍBV sem tóku frumkvæðið í leiknum og héldu Hauka-liðinu frá sér með naumri forystu til að byrja með. Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn hins vegar fjögur mörk og hefði hæglega getað verið meiri.   Þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik voru Haukar búnir að jafna metin eftir slæman kafla hjá ÍBV, staðan 15:15. Eftir átta mínútur án marks tókst Sigurbergi Sveinssyni loks að finna leiðina fram hjá Björgvini Páli Gústavssyni í marki Hauka en hann og kollegi hans í marki Eyjamanna áttu báðir stórleik í kvöld. Þegar rúmar tíu mínutur voru til leiksloka voru Haukar búnir að ná foyrustunni í fyrsta skiptið í leiknum. Liðsmenn ÍBV sýndu þá mikinn karakter og náðu að brjóta Haukana á bak aftur og knýja fram tveggja marka sigur.   Sigurbergur Sveinsson var markahæstur í liði ÍBV með sjö mörk. Aron Rafn Eðvarðsson varði 19 skot í markinu.   Myndir - Óskar Pétur Friðriksson