Segir starfsmann HSÍ hafa vegið að mannorði Magnúsar

27.04.2018
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV í handbolta, er allt annað en sáttur með þá ákvörðun aganefndar HSÍ að bæta við eins leiks banni við það bann sem Magnús Stefánsson, leikmaður liðsins, hlaut með úrskurði aganefndar þann 25. apríl sl. en Arnar tjáði sig um málið í langri færslu á facebook fyrr í dag. Magnús er þar með úr­sk­urðaður í tveggja leikja bann fyr­ir rauða spjaldið sem hann fékk á móti Hauk­um í fyrsta leik liðanna í undanúr­slit­um Íslands­móts karla í hand­bolta.   Tekur Arnar m.a. fram í færslunni að Magnús sé eitt mesta ljúfmenni sem hann þekkir og að starfsmaður HSÍ hafi vegið að mannorði hans í beinni útsendingu og komist upp með það:   "Það er því með ólíkindum að þegar Maggi Stef fær sitt fyrsta beina rauða spjald skuli HSÍ dæma hann í tveggja leikja bann og það að mér vitandi, fyrstan af öllum í Olís deild karla þetta árið fyrir brot. Þið vitið Olísdeildinni þar sem spilaður er handbolti og einn sló annan í punginn um daginn og fékk einn leik í bann! Deildin þar sem við höfum fengið að sjá þau nokkur rauðu spjöldin eftir að menn hafi farið í andlitið á andstæðingum sínum og í fæstu tilfellum fengið bann.   Sennilega spilar inn í að einn starfsmaður HSÍ tók sig til um daginn og hjó illa að mannorði Magga í beinni útsendingu sjónvarps. Sagði Magga hafa stundað það í mörg ár að slasa leikmenn viljandi til að vinna leiki. Þarna talaði starsmaður HSí gegn betri vitund og komst upp með. Hann fékk jú ámnningu frá sambandinu en orðin fengu að standa og enginn hefur beðist afsökunar eða reynt að bera þenna róg til baka. Þið munið, Maggi er búinn að spila leikinn lengur en flestir og það án þess að fá beint rautt spjald."