Þurfum að vera vel vakandi og halda áfram að gera okkar besta á öllum sviðum

28.04.2018
Í samtali við Eyjafréttir á dögunum sagði Unnar Hólm stjórn ÍBV íþróttafélags ávallt stefna að því að gera félagið betra og að hann tæki við góðu búi enda búið að borga upp allar langtíma skuldir félagsins.   Í hverju felst það að vera formaður stjórnar ÍBV íþróttafélags? „Formaður ÍBV íþróttafélags er í raun tengiliður í gegnum allt félagið. Hann er hluti af Aðalstjórn og sér um undirbúning stjórnarfunda og starfar í nánu samstarfi með framkvæmdarstjóra félagsins. Hann stendur einnig vörð um starfsemi og gildi félagsins ásamt gríðarlega mörgum aðilum og stuðningsmönnum ÍBV, því við stefnum öll að því að gera gott félag betra,“ segir Unnar.   Tekur þú við góðu búi? „Ég hef starfað í Aðalstjórn síðustu þrjú árin. Á síðustu árum hefur verið unnið afar vel í fjármálum félagsins þar sem staðan í dag er góð, búið er að borga upp allar langtímaskuldir félagsins. Þrátt fyrir það megum við ekki gleyma að það er ekki langt síðan að staða félagsins var ekki góð og verðum við að halda áfram að reka ÍBV íþróttafélag á ábyrgan hátt á öllum sviðum sem eina heild. Þessi árangur skrifast á ótrúlega marga aðila sem hafa lagt mikla vinnu í félagið,“ segir Unnar.   Aðspurður út í áherslur segir Unnar stjórnina ætla halda áfram á sömu braut. „Fyrst og fremst að halda áfram þessari góðu vinnu sem hefur verið í gangi undanfarin ár. Hjá ÍBV er mikill metnaður og margar skoðanir hvort sem horft er til leikmanna, starfsfólks, sjálfboðaliða, styrktaraðila eða stuðningsmanna. Við þurfum að vera vel vakandi og halda áfram að gera okkar besta á öllum sviðum.“   Er barna- og unglingastarf félagsins nægilega öflugt að þínu mati? „Barna og unglingastarfið er stór hluti af ÍBV og er mikill metnaður í að gera vel á því sviði. Hins vegar má alltaf gera betur og við þurfum að vera gagnrýnin á okkur sjálf. ÍBV íþróttafélag er Fyrirmyndarfélag ÍSÍ en það er viðurkenning um þær gæðakröfur sem íþróttahreyfingin gerir. Kröfurnar taka á mörgum atriðum eins og skipulagi, þjálfun, félagsstarfi, fræðslu, forvörnum, jafnréttismálum og fleiru. Höfum við verið verið að fjölga þjálfurum á hvern iðkanda á undanförnum árum. Ekki má gleyma akademíuni sem við erum mjög stolt að vera hluti af. Við þurfum að vera dugleg að ná til iðkenda og virkja þau í íþróttum því félagslegi þátturinn og hreyfingin sjálf skiptir miklu máli inn í framtíðina,“ segir Unnar.   Hvaða máli skiptir ÍBV fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum? „Ég held að ÍBV sé eitt af þessum atriðum sem skipta samfélagið í Eyjum miklu máli. Stór hluti eyjamanna kemur að ÍBV á einn eða annan hátt. Fjöldi fólks kemur til Eyja á viðburði sem ÍBV stendur fyrir s.s. þréttándagleði, Þjóðhátíð, Orkumót, TM mót og hleypur það á mörgum þúsundum. ÍBV er frábært íþróttafélag sem við getum verið gríðarlega stolt af og værum við ekki á þessum stað í dag nema vegna fólksins sem starfar í kringum félagið og þar erum við heppin. ÁFRAM ÍBV,“ segir Unnar að lokum.