ÍBV á að endurspegla eyjarnar

05.05.2018
 Eyjafréttir ræddu við Kristján Guðmundsson, þjálfara ÍBV, sl. föstudag en þá var hann á fullu að undirbúa liðið fyrir fyrsta leik í Pepsi-deildinni gegn Breiðabliki. Kristján var bjartsýnn fyrir leiktíðinni og fullur eftirvæntingar.   Telur liðið betur undirbúið en í fyrra Aðspurður út í undirbúningstímabilið sagðist Kristján vera þokkalega ánægður þrátt fyrir erfiðar samgöngur í byrjun árs. „Nú bjó ég að því að hafa verið búinn að fara í gegnum heilt tímabil hérna með liðinu og það var dýrmætt. Nú er ég búinn að læra á hlutina hérna, hvernig fólk hagar sér, hvernig ég haga mér, í hvaða pytt ég á ekki að detta í og annað. Svo er maður búinn að venjast ferðalögunum og með hverju maður á að fylgjast. Það sem var breytt frá því í fyrra var það að við náðum ekki að mæta í leiki í janúar og febrúar vegna samgangna. Deildarbikarinn var búinn 1. apríl þannig við þurftum sjálf að finna okkur leiki. Við þurftum nauðsynlega að bæta við leikjum því við vorum búnir að missa af svo mörgum leikjum og þurftum að spila liðið betur saman fyrir mótið. Í þetta sinn fór því meiri peningur í að ferðast upp á land í miðri viku til að spila æfingaleiki. Við röðuðum þessi niður eftir okkar hentugleika, styrkleiki liðanna sem við spiluðum við fór stigvaxandi og endaði svo á leik við FH hérna heima sex dögum fyrir mót. Það var virkilega gott að FH liðið kom.“ Er undirbúningurinn í ár s.s. betri en í fyrra? „Já, ég myndi halda það, ég held við séum nær en í fyrra.“ Það þarf þá ekki hálft mótið til að slípa liðið saman? „Vonandi ekki. En við erum t.d. að fá Yvan Erichot allt of seint í að spila heila leiki sem hefur áhrif á vörnina. Það hafa verið skakkaföll í vörninni, við höfum þurft að senda menn heim vegna meiðsla. Að öðru leyti lítur þetta bara vel út,“ segir Kristján.   Nauðsynlegt að brjóta upp mynstrið Nú voru töluverðar breytingar á liðinu frá því á síðasta tímabili. Voru þetta nauðsynlegar breytingar? „Já að einhverju leyti var nauðsynlegt að brjóta upp mynstrið og fá ferskari leikmenn sem þurfa að sanna sig. Það þarf átak í að komast upp úr fallbaráttunni, menn þurfa að brjóta niður múra til að komast upp á næsta stig. En við vildum að sjálfsögðu ekki missa alla þessa leikmenn sem við misstum en við þolum það alveg. Við höfum fengið í staðinn unga leikmenn og nokkra útlendinga þannig þetta er allt að smella. Það hvarf mest úr varnarlínunni, við misstum ekki svo mikið af miðjunni og svo skiptum við meðvitað um sóknarmenn. Varnarmaðurinn David Atkinson væntanlegur aftur í herbúðir ÍBV Að sögn Kristjáns var í raun úr litlu að moða á leikmannamarkaðnum á Íslandi í vetur. „Það voru örfáir leikmenn sem runnu út á samningi, leikmenn sem hefðu getað styrkt okkur. Við töluðum við einstaka aðila og allir voru jákvæðir en ákváðu að gera eitthvað annað en að koma til okkar. Þá er eina í stöðunni að finna unga og efnilega stráka sem þurfa að sanna sig. Við fengum það bæði hérna heima og úti. Síðan fengum við tvo reynslumikla Frakka og við munum einnig fá David Atkinson aftur til okkar, vonandi í vikunni,“ segir Kristján sem reiknar jafnvel með fleiri mönnum til viðbótar.   „Það er ekki útilokað að við fáum til okkar einn leikmann í viðbót. Við erum sennilega að horfa á miðjuna fyrst við erum komnir með David í vörnina og Frakkann í sóknina. Svo eru nú komnir nokkrir strákar upp úr öðrum flokki, það var alltaf stefnan að þeir kæmu inn í þennan hóp en þeir hafa verið óheppnir með fótbrot, kviðslit og annað sem er svolítið pirrandi. Það var stefnan að ná inn fimm til sex inn í þennan 18 manna hóp en ætli við séum ekki að ná inn þremur. Við viljum að þessir strákar fái mínútur.“ Hver er t.d. staðan á Devoni? Kom eitthvað bakslag? „Það er í raun ekkert bakslag, en við þurfum að vita nánar hver staðan er á honum. Það þarf eitthvað að skoða taugaendana í fætinum á honum en það lítur allt út fyrir að við getum látið hann spila, svona 98% líkur. Ef hann getur beitt sér og við erum ekki að skemma neitt þá mun hann spila en við tökum enga áhættu með hann, þess vegna er nauðsynlegt að fá allar upplýsingar og vera með allt á tæru.“   Eru með markvisst þrepa-prógramm Kemur þér á óvart að vera spáð botnbaráttu? „Pepsi-marka þátturinn spáir út frá deildarbikarúrslitum og þar erum við í þriðja sæti riðilsins og tökum helming stiganna sem í boði eru. Þjálfarar og forráðamenn félaganna spá okkur einnig neðst þannig það er greinilegt að við höfum ekki gert nógu mikið til að vera „sexy“ í þeirra augum. Við höfum allavega ekki rætt þetta einu orði hérna inni, við erum einbeittir á þau markmið sem við höfum sett okkur og þau snúast um miklu betri hluti en þetta. Við erum með markvisst þrepa-prógramm. En það getur svo sem alveg verið eðlilegt að spá okkur þarna, það getur vel verið að við séum ekki búnir að styrkja okkur nóg en það er skrýtið að við eigum ekki meiri innistæðu. Við vinnum bikarinn og erum síðan bara að breyta aðeins um hóp, af hverju ekki að breyta um hóp? En það getur verið fínt að vera bara spáð 12. sætinu, það er mótivering fyrir einhverja og við munum bara nýta okkur það,“ segir Kristján.   Eyjastemning Helsti styrkleiki liðsins segir Kristján vera liðsheildina. „Þótt við séum ekki að raða inn mönnum sem eru að koma úr atvinnumennsku þá erum við að búa til liðsheild. Það er hægt að nefna íslenska landsliðið en það er liðsheild sem er að vinna stærstu þjóðir heims sem hafa kannski stórkostlegustu einstaklingana. Þeir eru að vinna því þeir eru liðsheild, spila kerfið sitt og allir vita hvað þeir eiga að gera og með markmiðin alveg á tæru,“ segir Kristján sem hefur einnig lagst í mikla vinnu við að finna út hvað Eyjastemning er. „Ég tel mig vera búinn að komast að því af hverju hún hefur horfið og hvernig á að fá hana til baka. Það er eitt af markmiðum okkar að koma henni í gang, við erum aðeins á eftir áætlun þar. Það vantar ákveðna pósta inn í þetta hjá okkur svo við náum henni alfarið en það mun koma. ÍBV á að endurspegla eyjarnar, vinnusemi og að leggja sig fram, gera allt fyrir samfélagið, það er það sem við viljum fá og þá held ég að ÍBV verði sterkt lið.“ Sjálfsagt að stoppa menn úti á götu og spjalla á jákvæðu nótunum Stuðningurinn mun væntanlega skipta ykkur öllu í sumar eða hvað? „Það er erfitt að fara yfir einhverja ákveðna tölu í stúkunni en fyrst og fremst vill maður að þeir sem koma sendi jákvæða strauma og séu að hvetja liðið, sama hvernig gengur og úti í bæ að tala jákvætt, það munar gríðarlega miklu. Svo að sjálfsögðu láta andstæðinginn heyra það, menn verða að fá útrás. Fólk má síðan endilega stoppa mig og leikmennina úti á götu og spjalla við okkur á jákvæðum og léttum nótum og fá kannski svör við einni eða tveimur spurningum sem brenna á þeim, við erum alveg opnir fyrir því,“ segir Kristján að endingu.