Góður útisigur á FH í fyrsta leik
09.05.2018ÍBV sigraði FH á útivelli í fyrsta leik liðsins í Pepsi-deild kvenna þetta árið, lokatölur 1:3.
Strax á annarrri mínútu leiksins átti Sigríður Lára Garðarsdóttir skot sem hafnaði í varnarmanni FH en þaðan barst boltinn í fætur Cloé Lacasse sem kom boltanum í netið. Hálftíma síðar átti Cloé fyrirgjöf eftir góðan sprett upp hægri kantinn en inni í teignum var Kristín Erna Sigurlásdóttir réttur maður á réttum stað og stýrði boltanum framhjá markverði FH.
Tæpum tíu mínútum fyrir leikslok kom þriðja mark ÍBV en það var sjálfsmark eftir fyrirgjöf Adrienne Jordan. Skömmu síðar tókst liðsmönnum FH að minnka muninn í tvö mörk en nær komst liðið ekki og sanngjarn sigur ÍBV staðreynd.