Komnar með nóg af fimmta sætinu
12.05.2018Aðspurð út í undirbúningstímabilið sagði Sóley Guðmundsdóttir það hafa gengið ágætlega þrátt fyrir að úrslit hafi ekki verið hagstæð. „Úrslit leikjanna eru ekki búin að vera nógu góð en við erum búin að ná að nýta þessa leiki vel og æfa vel.“
Ertu ánægð með þær breytingar sem orðið hafa á liðinu frá því á síðasta tímabili? „Það hafa orðið mjög litlar breytingar á hópnum sem er gott, ungu stelpurnar eru alltaf að fá meiri reynslu og við erum allar að læra betur inn á hvor aðra þannig ég er mjög sátt með hópinn,“ segir Sóley og bætir við að góð stemning sé í liðinu. „Já, mér finnst stemningin góð. Við erum allar að stefna í sömu átt og þá verður samheldnin meiri.“
Ykkar er spáð um miðja deild, hver er þín skoðun á því og hver eru ykkar markmið? „Það er kannski skiljanlegt miðað við síðust ár og miðað við gengið í vetur en við erum staðráðnar í því að enda ofar og við erum allar komnar með nóg af fimmta sætinu. Við ætlum okkur að gera betur en í fyrra og að stríða toppliðunum er eitthvað sem við erum að horfa á. Einnig leggjum við mikið upp úr að gera Hásteinsvöll að vígvelli þar sem ekkert er gefið eftir og að aðkomuliðin fái ekki að taka stig með sér héðan,“ segir Sóley.
Hverjir eru ykkar helstu styrkleikar? „Sami hópur og í fyrra er okkar helsti styrkleiki, við þekkjum hvor aðra og vitum hvað við getum.“
Hversu miklu máli skiptir að fá góðan stuðning á leikjum? „Að fá góðan stuðning skiptir öllu máli, það gefur svo mikinn auka kraft að finna fyrir stuðningnum úr stúkunni og sú orka smitast til okkar inn á völlinn,“ segir fyrirliðinn að lokum.