Úrslitaeinvígið galopið eftir tap Eyjamanna

15.05.2018
 ÍBV og FH mættust öðru sinnis í úrslitaeinvígi liðanna í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í Hafnafirði í kvöld. Heimamenn í FH höfðu betur 28:25 og jafna því einvígið í 1:1.   Jafnræði var með liðunum í kvöld en ÍBV var þó alltaf í því hlutverki að elta en í hálfleik leiddi FH með tveimur mörkum, staðan 15:13.   ÍBV byrjaði síðari hálfleikinn vel og náði forystunni þegar átta mínútur voru liðnar. FH-ingar gáfu þó ekkert eftir í kjölfarið og var leikurinn hnífjafn næstu mínúturnar. Eftir um 45 mínútna leik tók hins vegar við slæmur kafli hjá Eyjamönnum, brottvísanir og tapaðir boltar. Liðsmenn FH gengu á lagið og náðu fjögurra marka forystu þegar um tíu mínútur lifðu leiks. Eftir það var róðurinn þungur fyrir Eyjamenn sem þurftu að lokum að sætta sig við þriggja marka tap.   Theodór Sigurbjörnsson var markahæstur í liði ÍBV með sex mörk. Aron Rafn Eðvarðsson varði 11 skot í markinu.   Næsti leikur liðanna verður í Vestmannaeyjum fimmtudagskvöld.