ÍBV einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum - myndir
17.05.2018 ÍBV lagði FH að velli í þriðja leik liðanna í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn í Eyjum í kvöld, lokastaða 29:22 Eyjamenn settu tóninn strax í byrjun og náðu fimm marka forystu þegar um tíu mínútur voru liðnar, staðan 6:1. Stuttu seinna þurfti Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður FH, að fara af velli eftir viðskipti sín við Andra Heimi Friðriksson en Gísli Þorgeir skall harkalega með höfuðið í gólfið og hlaut fyrir vikið skurð og virtist vankaður um tíma. Einnig virtist öxl Gísla Þorgeirs hafa orðið fyrir hnjaski og kom hann ekkert meira við sögu í leiknum. Við þetta efldust FH-ingar og náðu að minnka muninn í tvö mörk en þremur mörkum munaði hins vegar á liðunum þegar flautað var til hálfleiks. Í síðari hálfleik sýndu Eyjamenn hvers þeir eru megnugir og hleyptu gestunum aldrei nálægt sér. Róbert Aron Hostert átti góðan leik fyrir ÍBV og skoraði átta mörk, einu marki betur en Agnar Smári Jónsson. Aron Rafn Eðvarðsson var einnig öflugur og varði 15 skot í markinu. Myndir - Óskar Pétur Friðriksson