Eyjamenn Íslandsmeistarar
19.05.2018 Karlalið ÍBV í handbolta tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn fyrr í dag þegar liðið lagði FH að velli með átta marka mun, lokatölur 20:28.
Eyjamenn voru án Andra Heimis Friðrikssonar sem var dæmdur í eins leiks bann fyrir brot á Gísla Þorgeiri Kristjánssyni í leik liðanna í Eyjum á fimmtudaginn. Það kom ekki að sök því ÍBV tók frumkvæðið snemma leiks og lét forystuna aldrei af hendi.
Með sigrinum tryggði ÍBV sér þriðja titilinn á tímabilinu en eins og flestir vita eru Eyjamenn einnig ríkjandi bikar- og deildarmeistarar.
Aron Rafn Eðvarðsson átti enn og aftur stórleik í marki Eyjamanna en hann varði 15 skot. Róbert Aron Hostert og Sigurbergur Sveinsson voru atkvæðamestir í markaskorun Eyjamann í dag með fimm mörk hvor.
Fjöldi fólks kom saman á Háaloftinu í dag til að fylgjast með leiknum, Óskar Pétur Friðriksson, ljósmyndari Eyjafrétta, lét sig ekki vanta og tók meðfylgjandi myndir.