Kristján Örn búinn að semja við ÍBV

23.05.2018
Handknattleiksdeild ÍBV er búin að ganga frá samningi við hægri skyttuna Kristján Örn Kristjánsson en hann kemur frá Fjölni. Kristján Örn, eða Donni eins hann er kallaður, mun leysa Agnar Smára Jónsson af hólmi en sá síðarnefndi mun ganga til liðs Val fyrir komandi leiktíð.   Orðrómur hefur verið á kreiki að hinn 30 ára leikstjórnandi Fannar Þór Friðgeirsson sé einnig á leið til ÍBV en Fannar ku vera á heimleið eftir að hafa verið í atvinnumennsku um árabil, síðast með Hamm-Westfalen í þýsku 2. deildinni.   Í samtali við Eyjafréttir hafnaði Davíð Þór Óskarsson, nýkjörinn formaður handknattleiksdeildar ÍBV, því að félagið væri búið að ná samkomulagi við Fannar Þór og sagði að einungis væri um sögusagnir að ræða. Aðspurður hvort aðrir leikmenn ÍBV væru á förum gat Davíð Þór aðeins staðfest að Agnar Smári og Stephen Nielsen myndu yfirgefa félagið, ekkert væri ákveðið með aðra leikmenn að svo stöddu.