Eitt vinsælasta kvennamótið þó víðar væri leitað
14.06.2018Guinot golfmótið var haldið í fimmta sinn um helgina. Fyrir mótinu standa mæðgurnar Ágústa Kristjánsdóttir og Magnúsína Ágústsdóttir. Um 60 konur tóku þátt í mótinu sem tókst glsæilega þrátt fyrir rigninguna. „Það er gaman að segja frá því að þegar við skipulögðum mótið fyrst varð mamma löggiltur ellilýfeyrisþegi þegar þetta fyrsta opna kvennamót var haldið og það í 70 ára sögu klúbbsins. Mótið var kallað Magnúsínu mót og heppnaðist það mjög vel og við fundum mikinn áhuga. Konurnar sem kepptu skemmtu sér mjög vel og ekki skemmdi fyrir að hún Elsa okkar framkvæmastýra klúbbsins gerði einstaklega vel við okkur. Það vorum einnig nokkrir menn á bak við tjöldin sem græjuðu og tóku til hendinni við undirbúning mótsins og þar verð ég að nefna hann pabba, en þetta hefði ekki verið hægt án hans aðstoar,“ sagði Ágústa í samtali við Eyjafréttir. Mægðurnar fengu strax mikinn meðbyr eftir fyrsta mótið og ákváðu þá að gera þetta einu sinni enn og fengum til liðs við sig Guinot snyrtivörumerkið sem Cosmetics ehf. hefur umboð fyrir. „Þetta lukkaðist enn betur í annað sinn og við höfum haldið þetta núna fimm sinnum og mótið hefur fest sig í sessi sem eitt vinsælasta kvennamótið þó víðar væri leitað,“ sagði Ágústa og bætti við að Guinot væri franskt hágæða snyrtivörumerki sem hún og hennar starfsfólk á snyrtistofu Ágústu vinna mikið með, en nýverið flutti Ágústa snyrtistofu sína í Faxafen 5 í Reykjavík.